„Er í Brussel á fundi um loftslagsmál – og náði aldrei þessu vant að plata Örnu til að koma með,“ segir Dagur B. Eggertsson fyrrum borgarstjóri og svo hófst ævintýrið:
„Byrjuðum daginn eldsnemma í morgunmat hjá Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra NATO. Ég kynntist Jens þegar ég var varaformaður Samfylkingarinnar og hann leiddi Verkamannaflokkinn í Noregi og var forsætisráðherra Noregs. Við náðum ótrúlega vel saman frá fyrstu kynnum og höfum haldið sambandi allar götur síðar.
Það var einstakt að koma á fallegt heimili Jens í Brussel og fara yfir það sem á dagana hefur drifið frá því við hittumst síðast. Ræddum starf hans hjá NATO og næstu skref þegar því lýkur síðar á þessu ári. Við ræddum Samfylkinguna og stöðuna í aðdraganda kosninga á Íslandi sem Jens fylgist með af áhuga. Og síðast en ekki síst börnin okkar og lífið.
Jens er gull af manni og einstakur ljúflingur sem hefur tekist á við ótrúleg verkefni eftir innrás Rússa í Úkraínu. Fáir hefðu leyst það betur af hendi. Hann er einnig af sumum sagður sá eini sem getur talað við Trump. Tíminn flaug frá okkur og Jens rauk af stað eftir morgunmatinn á leið á fund með Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu. Við Arna röltum og tókum lestina í átt að húsakynnum Evrópuþingsins þar sem loftslagsfundurinn fer fram.“