„Við erum stödd í 4 stjörnu fangelsi undir strönd Maurasitius 25. febrúar 2024. Við erum föst um borð í skipinu!,“ segir Jóhann Helgi Hlöðversson athafnamaður sem er í heimssiglingu ásamt Margréti Ormsdóttur eiginkonu sinni:
„Það kom upp rassakvef og við fáum ekki að taka land! Við áttum að vera í Réunion í gær en þeir neituðu að taka við okkur. Þess í stað áttum við að taka land á Mauritius í gærkveldi kl 19 en höfum ekki enn fengið landvistarleyfi. Í gærkveldi kom tilkynning um að heilbrigðisyfirvöld Mauritius væru komin um borð og þau óskuðu eftir að fá að ræða við farþega. Þeir óttast Kólerusýkingu! Það tekur allt að 24-48 klst að fá það staðfest. Um borð eru 2400 farþegar og rúmlega þúsund starfsmenn. Skipstjórinn var að tilkynna okkur að við fáum ekki að taka land fyrr en á þriðjudaginn! Eftir tvo daga og það er mikill pirringur um borð. Flestir pökkuðu í gærkveldi og létu töskurnar út fyrir dyrnar sínar þar sem þær voru settar niður í lest. Þetta ástand hefur gríðarlega keðjuverkun þar sem 2-3000 manns á leið úr skipinu eiga bókuð flug eða hótel og sami fjöldi eru núna að bíða á bryggjunni eftir að komast um borð. Eins er öll ferðaáætlun skipsins í uppnámi og sem þar með hefur áhrif á komandi farþega sem flestir hafa pantað ferð frá fyrirfram ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Nú þegar er farið að bera á skorti á ýmsum matvælum eins til dæmis eggjum og morgunkorni. Við Magga ákváðum að láta þetta ekki eyðileggja fyrir okkur daginn, sóttum handklæði og lögðumst í sólbað. Viti menn á sama augnabliki varð skýfall og við urðum frá að hverfa.“