„Mig langar að heiðra með nokkrum orðum 100 ára minningu söngkonunnar góðu, Guðrúnar Á. Símonar, sem var ein af okkar albestu er hér á landi hafa komið fram. Það er svo sem löngu vitað,“ segir Jón Kr. Ólafsson söngvari – Melódíur minninganna í Bíldudal – í minningagrein í Morgunblaðinu í dag:
„Guðrún var ung þegar hún kom fyrst fram, um 15 ára, þá mest meðal vina og kunningja. Á sínum tíma kom svo að því að Bjarni Böðvarsson hljómsveitarstjóri heyrði Guðrúnu syngja og eftir það söng hún með hljómsveit hans um nokkurra ára skeið og kom þá fyrst fram í útvarpi, þá um 17 ára gömul. Hreif hún alla sem til heyrðu með söng sínum og var þá stundum kölluð Deanna Durbin Reykjavíkur eða bara Íslands. Guðrún fór snemma til náms til útlanda, til Bretlands og Ítalíu. Hún söng inn á margar plötur, þar má nefna Fálkann og Íslenska tóna. Á seinni árum gáfu SG hljómplötur út þriggja platna sólóalbúm. Einnig gáfu SG hljómplötur út jólaplötu þar sem Guðrún og Guðmundur Jónsson sungu saman. Síðan var það á 40 ára söngafmæli hennar þegar Guðrún ásamt mörgum öðrum söngvurum kom fram. Þau fylltu Háskólabíó fimm sinnum sem var glæsilegt og öllum til sóma. Ég vil líka í þessum skrifum heiðra minningu tveggja listamanna sem voru á sama aldri og Guðrún Á., en þeir eru Haukur Morthens söngvari og Hannes Pálsson ljósmyndari. Ég þakka þeim öllum góð kynni mér til handa. Með vinsemd og virðingu, Jón Kr. Ólafsson söngvari.“
Tengd frétt: