„Við Pála brugðum okkur á tónleika Víkings Ólafssonar í Hörpu. Eldborgin þétt setin og miklar væntingar í loftinu enda búið að fjalla mikið um tónleikaröð Víkings í fjölmiðlum,“ segir Vilhjálmur Egilsson fyrrum þingmaður og rektor á Bifröst með meiru. En ekki er allt sem sýnist og heyrist:
–
„Víkingur stóðst með sóma og meira en það allar þær væntingar sem ég hafði gert mér og allt það sem hann hafði fram að færa hafði mikið gildi fyrir mig. En ég get ekki látið hjá líða að nefna að Víkingur var í samkeppni við hótstkórinn sem var mættur og hafði sig í frammi sérstaklega þegar rólegir og fínlegir hlutar verksins voru spilaðir. Eins og að þá þyrfti einhverju að bæta við spileríið hjá Víkingi. Að sjálfsögðu þarf að taka tillit til og sýna skilning á því að einn og einn tónleikagestur þurfi að hósta eða ræska sig öðru hverju en þegar kórinn er jafn hávær og í kvöld rýrir það gildi tónleikanna fyrir alla þá fjölmörgu sem eru komnir til að hlusta á tónlistina án framlags hóstkórsins. Ég rifjaði upp í huganum samtal við Guðmund Emilsson („Maestro“ eins og við kölluðum hann) sem sagði mér einu sinni frá tónleikum sem hann var að stjórna og að þar hefði einn tónleikagesturinn haft sig mjög í frammi með hósti og ræskingum. „Maestro“ tók þá til bragðs að gera hlé á tónleikunum og ávarpaði viðkomandi og sagði. „Annað hvort ferð þú út eða ég“. Alvöru maestro þar á ferð sem lét ekki eyðileggja tónleikana sem mikið var búið að hafa fyrir. Reyndar verð ég líka að nefna að á tónleikum Sinfó um daginn tók einn dyravörðurinn að sér hlutverk hóstkórsins með þeim hætti að sitja á stól við dyrnar og láta braka vel í honum, sérstaklega þegar fiðlarinn var að spila einleik.
En skilaboðin hjá mér eru þau að umburðarlyndið og skilningurinn þurfa alltaf að vera til staðar en því má ofbjóða eins og öðru og þannig leið mér á köflum á þessum annars frábæru tónleikum í kvöld.“