„Við sem komin erum á efri ár munum eftir mikilli herferð sem beint var gegn reykingum. Konur voru þar í fararbroddi,“ segir Þröstur Ólafsson rithfundur og samfélagsrýnir:
„Með reykingum í almannarými værum við hin tilneydd til að reykja líka. Við því fékkst loksins bann. Nú eru allir, blessunarlega, lausir undan þeim ágangi og þeirri heilsuánauð, sem reykingarnar annarra höfðu í för með sér.
–
Undanfarnar vikur hafa verið miklar stillur með sólskini a.m.k. í Reykjavík og nágrenni. Mesta umferðarsvæði landsins. Ég tók eftir því að eftir fyrstu vikuna fór ég að finna fyrir þurrahósta og reyndi án mikils árangurs að hreinsa lungun með ræskingum. Er enn að ræskja mig og skyrpa fínryki sem losnar úr malbiki við akstur á nagladekkjum og hefur sest að í lungum mínum.
–
Hér eru menn að iðka sama gjörning og áður með reykingum í almannarými. Óviðkomandi þjást vegna þeirra sem telja sig þurfa á þessum hjálpartækjum að halda til að geta ekið í hálkublettum eins og á sumarvegi. Alveg eins og reykingar annarra skemmdu lungu okkar hinna , spillir nagladekkjanotkun annarra heilsu okkar. Þessu verður að linna.“