Komið verður á fót skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir börn á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólaaldri í kjölfar fjölskyldusameiningar fólks frá Palestínu. Þetta var samþykkt í borgarráði í dag og stefnt er að formlegri opnun mánudaginn 22.apríl.
Í síðasta mánuði komu 35 börn frá Gaza í Palestínu til Reykjavíkur á grundvelli fjölskyldusameiningar og eru þau komin í þjónustu velferðarsviðs á forsendum samræmdrar móttöku flóttafólks. Í þessum hópi eru 15 börn á leikskólaaldri, 19 á grunnskólaaldri og eitt barn á framhaldsskólaaldri. Það liggur fyrir að það muni aukast í þessum hópi á næstu vikum.
Skóla- og fjölskyldumiðstöðin verður opin virka daga frá kl. 8.30- 13.00 og verður áhersla lögð á eftirfarandi:
–
· Vettvang fyrir samveru fjölskyldna.
· Samfélagsfræðslu.
· Mat á náms- og félagslegri stöðu barna.
· Kynningu á leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi, meðal annars með vettvangsheimsóknum.
· Latneska leturgerð.
· Grunnorðaforða í íslensku.
· Undirbúning fyrir leik- og grunnskólagöngu.
· Undirbúning fyrir foreldra í skólafærni.
Verkefnið er fjármagnað að hluta úr ramma skóla- og frístundasviðs en þörf er á viðbótarfjármagni upp á 13,1 milljón króna og verður sótt um styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til að mæta þeim viðbótarkostnaði.