Glasgow við Vesturgötu var stærsta hús landsins á sínum tíma segir Klemenz Jónsson í Sögu Reykjavíkur. Það var reist 1863 af skosku verslunarfélagi. Þar var útbúinn leiksalur um áratug síðar og rúmaði hann um 200 manns. Það var aðalleikhús bæjarins þar til Góðtemplarahúsið reis. Margvísleg starfsemi var í húsinu, en það var seinast íbúðarhús með um 40 herbergjum. Húsið brann árið 1903 og var það stærsti bruni sem orðið hafði í bænum.