Það var á þessum degi árið 1944 sem þrír ungir flugmenn, nýkomnir úr námi í Kanada, tóku sig til og stofnuðu flugfélag. Þetta voru stórir draumar, mikilvægur áfangi í flugsögunni og arfleifð sem við hjá Icelandair búum enn að í dag.
–
Loftleiðir eru talið eitt fyrsta lággjaldaflugfélagið sem tengdi saman Evrópu og Bandaríkin, að sjálfsögðu með stoppi á Íslandi. Þar vestra var félagið kallað Icelandic Airlines og fékk nafnbótina „hippaflugfélagið“ vegna þess fjölda ungmenna sem nýttu sér þjónustu þess. Meðal farþega á þeim tíma voru fyrrum forsetahjón Bandaríkjanna, Bill og Hillary Clinton.
Við eigum margt þessum mögnuðu frumkvöðlum að þakka, enda stendur Icelandair enn á þeim sterka grunni sem Loftleiðir byggði upp í millilandaflugi.
Í tilefni áttatíu ára afmælis Loftleiða var sýning um sögu flugfélagsins opnuð á Hótel Loftleiðum. Sýningin stendur fram til 16. mars í bíósal og austurálmu hótelsins þar sem sjá má kvikmyndir og muni úr merkri sögu Loftleiða.