„Stemning sem var“ er yfirskrift sýningar listamannsins Guðmundar Einars sem stendur yfir í Skotinu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur 30. október til 31. desember 2025. Á henni birtast okkur það sem hann kallar: „sjúskaðar en heiðarlegar leifturmyndir úr nálægri en rómantískri fortíð.“
Á tímabilinu 2010-2018 tók Guðmundur Einar mikinn fjölda mynda af fólki og hlutum sem gripu auga hans – aðallega í Reykjavík en einnig í Lundúnum og New York. Myndirnar, sem hann framkallaði ekki fyrr en nýverið, fanga stemningu þessa tímabils, og þegar hann sá þær áttaði hann sig á því að fyrir honum væru þetta dýrgripir.





