Járnlistamaðurinn Sveinn Markússon í Hafnarfirði lenti í gleðskap með sendiherrahjónunum Washington, Svanhildi Hólm og Loga Bergmann, í næsta húsi við þar sem hann býr.
„Gestirnir fóru að spyrja hvernig járnlistaverk ég gerði og þá fékk ég þá hugmynd að ná í eitt sem ég gerði fyrir löngu; þekkta lágmynd af Jóni forseta sem ég kalla Jón pönkara vegna járnáferðarinnar,“ segir Sveinn.
Sendiherrahjónin hrifust af verkinu og endaði með því að listamaðurinn afhenti þeim það með þeim orðum að þetta væri opinber gjöf til heiðurs Jóni forseta og alls sem hann stóð fyrir.
„Við getum sett hana upp í sumarbústaðnum,“ sagði Svanhildur og leit til Loga sem svaraði að bragði: „Nei, þessi fer í sendiherrabústaðinn.“
Myndin býður þess nú að komast alla leið til Washington með sendiherrahjónunum Svanhildi Hólm og Loga Bergmann.






