„Er það styrkur að standa ekki með samstarfsfólki sínu? Er það styrkur leiðtoga að ,,fara á taugum“ og fórna einum úr liðinu þegar viðkomandi lendir í mótlæti?“ spyr Rósa Guðbjartsdóttir fyrrum bæjarstjóri í Hafnarfirði og nú alþingiskona:
–
„Eftir að hafa hlustað á Vikulokin á RÁS 1 í morgun þar sem málefni fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra voru til umfjöllunar get ég ekki orða bundist. Í umræðunum virðast reyndir fjölmiðlamenn sammála um að uppákoman og afsögn ráðherrans styrki ríkisstjórnina og þétti hópinn. Getur einhver útskýrt frekar hvað átt er við?
Þegar á móti blæs og áskoranir eða vandamál koma upp í starfsmannahópnum eða liðinu, reynir verulega á leiðtogann og stjórnandann. Þá reynir á hvernig viðkomandi bregst við á yfirvegaðan hátt, skoðar allar hliðar málsins með liðsfélaganum, andar ofan í kviðinn og styður við hann. Aðdragandi afsagnar ráðherrans ber öll merki um óðagot og að leiðtoginn hafi ekki staðist álagið. Hvernig slíkt styrkir hópinn er mér hulin ráðgáta.“