„Nú er komið að mánaðarmótum og kvíðinn að ná hámarki, hvernig í ósköpunum á þetta að ganga upp?“ spyr Laufey Elíasdóttir landsþekkt leikkona og ljósmyndari:
„Ég var úrskurðuð sem öryrkji af læknum (a.m.k. tímabundið) og fannst erfitt að kingja þeirri pillu svo ég var rög við að senda umsókn í lífeyrissjóðinn og TR. Lífeyrissjóðurinn gefur sér 3-6 mánuði til þess að vinna úr þessu og TR taldi að endurhæfing væri ekki fullreynd, sem ég fagnaði. TR var ekki lengi að svara öryrkjaumsókninni en gefur sér góðan tíma að vinna úr endurhæfingarumsókninni. Þetta er kvíðvænlegt fyrir einstæða móður sem er að vinna sig útúr áföllum og því sem lífið hefur hent í hana. Það að hafa ekki eitthvað fjárhagslegt öryggi hægir á bataferlinu, þó svo að peningarnir dugi ekki til þess að ná endum saman. Ég lamast og í því ástandi gerist ekki neitt. Það er margt sem ég hef verið að vinna að eins og t.d. að opna ljósmyndastúdíóið mitt, fara að leika o.s.frv. Á meðan það er verið að finna útúr allskonar læknaveseni og lyfjastilla hitt og þetta þá þarf ég þetta öryggi sem apparatið okkar á að veita okkur sem veikjumst og förum í þrot. Nú er mánuður nr. 2 að ganga í garð án nokkurrar greiðslu og ég þoli illa að safna skuldum. Annað var það ekki.“