Nýtt verk hefur verið sett upp í Höggmyndagarðinum á Nýlendugötu. Vegvísir í allar áttir bendir á Nýlendugötu. Upp og niður.

Verkið er eftir Steinunni Gunnlaugsdóttur, fædd 1983. Hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2008 og tók þátt í opnu listnámi í menningarstofnuninni Ashkal Alwan í Beirút, Líbanon, veturinn 2013-2014. Steinunn var tilnefnd til Myndlistarverðlaunanna á Íslandi sem listamaður ársins 2018. Árið 2021 fékk hún verðlaun úr styrktarsjóði Richard Serra fyrir framlag sitt til skúlptúrlistar.
Hún vinnur þvert á miðla og gerir skúlptúra, myndbönd, hljóðverk, teikningar, gjörninga og innsetningar.
Af gáskablandinni alvöru tekst hún á við hin fjölmörgu hugmyndafræðilegu og siðferðislegu kerfi sem mannskepnan skapar, fæðist inn í, lifir við og berst gegn. Með því að rýna í og berhátta grunnstoðir hins siðmenntaða mannheims verður til efniviður fyrir tilraunir hennar til að ávarpa samtímann.






