„Það skemmtilegasta sem ég geri í útlöndum er að láta klippa mig hjá rakara í hliðargötu, helst gömlum sem er búinn að standa þarna á stofunni í hálfa öld,“ sagði Íslendingur á sundlaugarbakkanum á Tene og bætti við: „Þegar ég er búinn að því fer ég bara heim aftur. Þá er toppnum náð og ekkert gaman lengur.“
– Er þessi rakari kannski frá Sevilla eins og óperan eftir Rossini?
„Það veit ég ekki. Spurði ekki hvað hann héti.“
Þá var haldið af stað og rakarinn heimsóttur. Hann klippti vel en sagðist ekki vera frá Sevilla og því síður að hann héti Rossini. Svo tók hann smá aríu úr óperunni og rukkaði 10 evrur fyrir klippinguna – 1.460 íslenskar krónur.