Ég þurfti í miðborg Reykjavíkur snemma dags og lagði bílnum í bílakjallara Ráðhúss Reykjavíkur. Á skilti við innkeyrsluna stóð að 8 bílastæði væru laus. Þegar inn kom sýndist mér öllu fleiri en 8 vera laus, þannig að ég taldi lausu stæðin. Þau reyndust vera 59 talsins. Með öðrum orðum, 51 stæði var frátekið fyrir einhverja aðra en almúgann.
Á vefsíðu bílastæðasjóðs borgarinnar kemur skýringin í ljós, fyrir 20 þúsund krónur á mánuði er semsagt hægt að eiga frátekið stæði í Ráðhúskjallaranum. Engu skiptir hvort stæðið er notað að staðaldri eða sjaldan. Almúginn (sem borgaði byggingu ráðhússins) verður bara að leita annað ef allt er sagt „fullt“ í Ráðhúskjallaranum, þó nóg sé í raun af lausum stæðum.
Ekki þarf að fara í grafgötur með það að fólkið sem á þessi fráteknu stæði borgar ekki sjálft mánaðargjaldið, heldur vinnuveitandi þess.
Mánaðargjaldið í Ráðhúskjallaranum þykir ekki hátt, enda kostar klukkutíminn bara 27 krónur miðað við að stæðið sé frátekið allan sólarhringinn. Engan skyldi því undra að á vef bílastæðasjóðs kemur fram að bið eftir föstu stæði sé nokkur ár. Auðvitað vill enginn gefa eftir svona ódýrt stæði innanhúss í miðborginni, sérstaklega þegar viðkomandi borgar ekki sjálf/ur.
Í bílakjallaranum undir Hafnartorgi er hins vegar ekkert mál að fá frátekið stæði, enda er verðlagningin í samræmi við eftirspurn: 48 þúsund krónur á mánuði fyrir sólarhringsstæði. Þar gilda lögmál markaðarins, annað en í Ráðhúsi Reykjavíkur.