„Í búðinni eru komnir páskar fyrir löngu. Beint á móti inngöngunni blasa við páskaegg í milljarðavís full af andrúmslofti, fimm aura kúlum og málshætti,“ segir Benedikt Axelsson fyrrum fjölmiðlamaður, pistlahöfundur, teiknari og heimspekingur:
–
„Með þessu á að gleðja börnin þótt þetta geri þau vitlaus á tvöföldum hraða hljóðsins og skemmi í þeim tennurnar.En vitleysan ríður ekki við einteyming því að einn góðan veðurdag las ég það í blaðinu, sem aldrei lýgur, að átta bollar af kaffi á dag gerðu alla brjálaða.
Þetta hafði vísindamönnum í Ameríku tekist að sanna.
–
Af því tilefni hætti ég kaffidrykkju en hélt samt áfram að vera brjálaður.
Seinna kom reyndar í ljós að kaffibollarannsóknin hafði ekki verið vísindaleg könnun og nokkru síðar komust menn þar að auki að þeirri niðurstöðu að hún væri röng. Þeir einu, sem virtust hafa orðið vitlausir af kaffiþambinu, voru þeir sem að rannsókninni stóðu.
Svona eru vísindin stundum galin.“