Fimm stórfyrirtæki vilja byggja upp starfsemi sína á nýju atvinnusvæði á Hólmsheiði og af því tilefni fóru forsvarsmenn þeirra og borgarstjóri á svæðið og handsöluðu lóðavilyrði um uppbyggingu á þessu nýja athafnasvæði.
Fyrirtækin sem ætla að koma sér fyrir á nýja athafnasvæðinu á Hólmsheiði eru:
- Ölgerðin mun byggja upp vöru- og dreifingarmiðstöð, auk vatnsátöppunarverksmiðju;
- Alvotech mun reisa pökkunarmiðstöð og kæligeymslur fyrir líftæknilyfjaframleiðslu fyrirtækisins;
- Parlogis mun reisa hátæknivætt vöruhús;
- Veritas ætlar að byggja vöruhús fyrir heilbrigðisstarfsemi;
- Safari ætlar að reisa nýjar höfuðstöðvar.
„Með athafnasvæðinu á Hólmsheiði er fyrirtækjunum gert kleift að vaxa og dafna innan borgarmarkanna og undirtektirnar hafa verið frábærar! Það er sérstaklega ánægjulegt að borgin og þessi flottu fyrirtæki ganga í takt þegar kemur að því að gæta sérstaklega vel að náttúrunni á svæðinu,” segir Einar Þorsteinsson, borgarstjóri.