Freyjugarður, sem er við Freyjugötu 19, var opnaður formlega í gær en í garðinum er hægt að eiga hugljúfa náttúrustund með ljóðrænu ívafi.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri opnaði þessa skemmtilegu skáldavin í borginni en nafnið Freyjugarður vísar til þess að garðurinn er tileinkaður íslenskum skáldkonum.
Í garðinum eru samtals fimm standar með tíu ljóðum eftir fimm íslenskar núlifandi skáldkonur. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fékk rithöfundinn Sigurbjörgu Þrastardóttur til liðs við sig sem fyrsta ritstjóra ljóðanna í garðinum. Börn frá leikskólanum Laufásborg komu á opnunina og sungu eitt lag við mikinn fögnuð viðstaddra.