Vesturport hefur fengið vilyrði fyrir lóð í Gufunesi og með því styrkist enn frekar skapandi starfsemi á svæðinu. Gufunesið hefur verið kallað Þorp skapandi greina og áhersla verið lögð á að laða að fyrirtæki á sviði kvikmyndastarfsemi og nú bætist leikhússenan við.
Borgarstjóri sagði frá lóðavilyrðinu á kynningafundi um Athafnaborgina á föstudag, en á þeim fundum er fjallað um atvinnulíf og uppbyggingu innviða. Vesturport, sem er þekkt fyrir nýstárlega nálgun á sviðslistir og hefur gert garðinn frægan á alþjóðavettvangi, stefnir á að byggja upp starfsemi sína í Gufunesi, upplýsti Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri og kallaði hún Gísla Örn Garðarsson forsvarsmann Vesturports upp á svið til undirskriftar. Eins og venja er um slík vilyrði er það með fyrirvara um samþykki borgarráðs.
„Það er gleðiefni fyrir okkur að fá að taka þátt í uppbyggingu menningarstarfsemi á jafn spennandi svæði og Gufunesið er. Að reisa okkur rými til lífs, leiks og lista í beinni tengingu við verðandi íbúa. Það er vissulega tilhlökkunarefni að ganga til liðs við þá grósku sem nú þegar blómstrar í hverfinu og fá að setja mark okkar á áframhaldandi menningarstarf í borginni“, segir Gísli Örn. Hann rifjaði upp við undirritunina að á næsta ári yrðu liðin 25 ár frá því Vesturport hóf starfsemi sína í litlum skúr á Vesturgötu og tók hópurinn nafn sitt af því.






