Reykjavíkurborg hefur skuldbundið sig til að taka þátt í alþjóðlegu verkefni sem miðar að því að efla líffræðilega fjölbreytni í borgum, endurheimta vistkerfi og treysta græna innviði. Líf Magneudóttir, formaður borgarráðs, undirritaði Náttúruborgarsamning Berlínar (Berlin Urban Nature Pact), fyrir hönd borgarinnar í Ráðhúsinu í Berlín, höfuðborg Þýskalands, í fyrradag:
„Eitt af okkar brýnustu verkefnum í samtímanum er varðveisla og endurheimt náttúru og búsvæða lífvera í ört stækkandi borg. Við Reykvíkingar erum lánsöm að hafa greitt aðgengi að náttúrulegum svæðum og grænum íverustöðum en við megum ekki taka þeim sem gefnum. Við verðum að hlúa að þeim og átta okkur á að þessir staðir eru einnig mikilvægir og lífsnauðsynlegir fyrir aðrar lífverur, rétt eins og okkur. Við eigum að leggja okkur fram við að efla og fóstra borgarnáttúruna okkar og vera meðal fremstu borga þegar það kemur að líffræðilegri fjölbreytni,“ segir Líf.






