„Haldið ekki að hún Debbie Harry sé orðin áttræð, hún á afmæli í dag,“ segir Gunnar Smári vorstjarna sósíalista og heldur áfram:
„Hvert fór tíminn? Þetta lag kom út 1979, þegar ég var 18 ára, sem er aldeilis góður aldur fyrir svona lag. Ég get reiknað út að þá var Debbie Harry 34 ára, sem er líka aldeilis góður aldur. Nokkrum árum síðar var ég á labbi í East Village á Manhattan með Jóhannesi vini mínum og Bart, sem margir Íslendingar sem búið hafa í New York þekkja, hann gekk eiginlega í arf milli Íslendinga sem góður vinur og drykkjufélagi. Bart leit út eins og Buddy Holly og Jóhannes alltaf eins og grískur guð, ég á milli þeirra, aðeins of langur, aðeins of mjór og aðeins of ósofinn, slæptur og illa til reika, 26 ára logandi sál á refilstigum. Nema hvað, Debbie Harry kemur gangandi á móti okkur, 42 ára samkvæmt reiknivélinni, í fráhnepptum leðurjakka, með þetta sjálfsöryggi í göngulaginu og horfir sposk á okkur þrjá svo að Bart verður að stoppa þegar hún er gengin hjá til að láta okkur skilja mikilvægi þessa augnabliks, að sjálf heilög og almáttug Debbie Harry hafi verið að giving okkur the eye! Síðan hef ég ekki séð hana. En þetta var fallegur dagur, vor í New York og loftið eins og fresca-auglýsing, sindrandi einhvern veginn og svalandi. Og Debbie Harry var tákn alls þess góða sem þessi borg gat búið til. Síðan held ég að borgin hafi tapað áttum, hrakið gott fólk af Manhattan undan hárri leigu og óheyrilegum kostnaði við að draga fram lífið. Kannski mun Zohran Mamdani endurvinna borgina svo venjulegt fólk geti lifað þar og blómstrað.“