Hrafninn er sagður gáfaðastur fugla, svo gáfaður að hann stríðir bæði og hrekkir hunda og ketti á víðavangi sér til dægrastyttingar. En hann á fleira til:
„Dimma er að reyna ná sambandi við þig!“ sagði eiginkona Jóhanns Helga Hlöðverssonar athafnamanns þegar hann var á leið í ræktina í morgun.
„Ég snéri mér að búrinu hennar og sá að hún reyndi að ná athygli minni með því að rétta út úr búrinu stóra fjöður úr sjálfri sér. Ég kraup niður að henni og spurði hana hvort hún ætlaði að gefa mér þessa fjöður? Hún rétti mér fjöðrina og sleppti henni í lófann minn og þegar ég sagði VÁÁ Dimma! Ætlar þú að gefa pabba þessa fjöður? Þá setti hún hausinn niður og dillaði stélinu ótt og títt og var greinilega mjög ánægð með mín viðbrögð yfir þessari gjöf. Dimma er orðin fimm eða sex ára og hefur áður fært mér fjöður frá sér með sömu viðhöfn og látbragði. Dimma þakkar mér einnig oft fyrir þegar ég færi henni eitthvað sérstaklega gott í matardallinn. Hún er ákaflega gjafmild og gefur frá sér mat til hundanna og er einnig farin að fæða tvo hrafna sem líta til hennar af og til. Ég hef aldrei vanið mig á að gefa dýrunum mínum nammi við þjálfun heldur nota ég einungis hrós. Ég hef tekið eftir því að við erum öll eins innan við beinið og skiptir þá engu máli af hvaða dýrategund við teljumst vera. Dimma tekur undir máltækið “Sælla er að gefa en þiggja”.