Jónatan Hermannsson jarðræktarfræðingur lætur bernskuminningu svífa – um tómið:
tómið er óskaplegt
efnið í alheiminum svo lítið
og svo ótrúlega smátt
hugsum okkur
að milljón kílómetrar í raunheimi
séu millimetri í mannabyggð
þá væri sólin sandkorn
af grófara taginu
svona sem maður mundi finna fyrir í skó sínum
hér á borðshorninu í stofunni
jörðin rykkorn
15 sentimetrum frá sólu
annað rykkorn og nær sólu
væri þá Venus
sem nú brennur björtust og mildust
á bládjúpum kvöldhimni
Mars sem minnir stundum
á rauð stöðvunarljós á vegi
enn minna rykkorn og eilítið utar
Júpíter eins og sandkorn úr Hraunssandinum
sem við notuðum í fínpússningun
hér í gamla daga
78 sentimetra frá borðshorni
sólkerfið mundi rúmast alt
á framlengdu stofuborðinu
nema Neptúnus væri frammi á gangi
og snjóboltaskýið yst í sólkerfi
væri þá snjódrif úti á hlaði
og svo væri bara tómið
Síríus væri afklipptur haus af tútommu
einhvers staðar úti yfir Selvogsbanka
Arktúrus haus af fírtommu á Herðubreið
blástjarnan sem heitir Vega á útlensku
væri þá annar fírtommuhaus á Tindastóli
þar á milli ekkert nema tómið
aðalefni heimsins
eða efnisleysi heimsins
og ég bara lítill drengur
á leið í fjósið
lifandi í efninu
horfandi upp en ekki fram
og skilur ekki neitt