Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti einróma í dag endurskoðaða aðgerðaáætlun með stefnu í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, sem gildir til ársins 2027. Skaðaminnkandi, valdeflandi og batamiðuð nálgun sem og hugmyndafræðin um húsnæði fyrst verður áfram leiðarljós í allri þjónustu við hópinn. Auka á áherslu á þjónustu við konur og einstaklinga af erlendum uppruna og þá verður áfram unnið að því að þrepaskipta þjónustunni, þannig að eitt úrræði taki við af öðru eftir þörfum einstaklinga. Markmiðið með því er meðal annars að draga úr þörf á neyðarrýmum samhliða því að fjölgun verði á tímabundnu húsnæði og varanlegum húsnæðisúrræðum.
Meðal þess sem lagt er til:
- Stefnt er að uppbyggingu 106 nýrra húsnæðiseininga fyrir árslok 2027.
- Búið verður til nýtt verklag um mat á því hvort einstaklingur falli undir markhópinn heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
- Nýtt neyðarskýli fyrir heimilislausar konur verður tekið í notkun sem tekur við af Konukoti.