Valur Gunnarsson rithöfundur fékk ekki listamannalaun í ár þó sískrifandi sé og stefnir fyrir bragðið í vandræði hjá honum. Hann srifar í dagbók sína – Dagbók öreiga:
–
9. desember, 2024.
Hæð: 193 cm.
Þyngd: 137.3 kg
Inneign: 483.574 kr
Orð skrifuð í næstu bók: 71.109
Mikið andskoti er orðið dýrt að gleyma að skila bókum á safnið. Ég fæ ekki að taka nýjar nema ég geri upp. Slepp með að borga 280 krónur svo skuldin fari undir 2000 krónur og fæ að taka út bækurnar. Eins gott að gleyma þeim ekki næst.
Í útrunnakassanum í Krónunni eru kjúklingabitar og Waldorf salat á afslætti. Hátíð í bæ, það er meira að segja útrunnið Camenbert stykki líka. Geri þó þau mistök að kaupa egg. Næstum 1000 krónur! Hef greinilega aldrei keypt tíu stykkja bakka áður. Geri það varla aftur í bráð.
Hef lést um tvö kíló frá því að þeir tóku allt af mér og ég hætti að mæta til þjálfara. Kannski er það mest vöðvarýrnun, en samt. World Class kortið dugar fram á næsta haust, og sundkortið fram á næsta vor. Óþarfa lúxus að vera með bæði, en ágætt þó. Strætókortið rann út á laugardag og verður varla endurnýjað. Ég keypti þrjár buxur í Dressmann og skó á Black Friday áður en ég vissi hvernig áraði. Ég þarf aðeins að tóra fram í maí þegar túristarnir taka að koma.
Er hægt að lifa af hálfri milljón í hálft ár?