Bráðum koma blessuð jólin er yfirskrift jóladagskrár Árbæjarsafns sunnudagana 8. og 15. desember en þá daga gefst gestum tækifæri að njóta aðventunnar og upplifa jólin eins og þau voru í Reykjavík í þá gömlu góðu daga.
Í Árbæ sker fólk út laufabrauð, kembir ull og spinnur garn. Í Hábæ bjóða húsbændur gestum að smakka íslenskt hangikjöt og í Nýlendu tálgar maður skemmtilegar fígúrur úr tré. Kæsta skatan er komin í pottinn í Efstabæ og í Miðhúsum eru prentuð falleg jólakort. Kaffiilmur berst frá Dillonshúsi en þar er upplagt að setjast niður fá sér tíu dropa og smá bakkelsi með.