„Hér áður fyrr var gjarnan varað við því að borða egg þegar hjarta og æðasjúklingar áttu í hlut. En það er mýta sem löngu er búið að kveða í kútinn og engin efast lengur um hollustu eggja, fyrir alla. Egg eru fjölmítamín náttúrunnar,“ segir Björn Ófeigsson ritstjóri á hjartalif.is sem er með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð:
„Aðalnæringarefnin eru í eggjarauðunni, sem inniheldur einnig andoxunarefni sem styðja við frumuheilbrigði. Eggjahvítan er aðallega prótein sem gerir eggin bæði næringarrík og fjölbreyttari.
Egg eru mettandi og orkuríkt val í morgunmat en þau innihalda mikið af próteini og fitu en lítið af kolvetnum. Rannsóknir sýna að egg geta aukið seddutilfinningu og minnkað löngun í aðra fæðu yfir daginn. Í einni rannsókn voru þátttakendur sem borðuðu egg í morgunmat mettir lengur og borðuðu minna það sem eftir lifði dagsins en þeir sem borðuðu kolvetnaríkan morgunmat. Niðurstaða: Egg í morgunmat geta aukið seddutilfinningu og hjálpað til við þyngdarstjórnun.
En ekki eru öll egg eins. Egg frá hænum sem ganga frjálsar eða sem eru bætt með Omega-3 fitusýrum eru ríkari af næringarefnum en egg úr verksmiðjuræktun. Það er alltaf best að velja egg úr heilnæmari ræktun en ef það er ekki hægt, eru „venjuleg“ egg samt góð uppspretta næringar.“