„Gamall vinur minn, Kristján E. Guðmundsson, öðru nafni Diddi, er borinn til grafar í dag,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og rithöfundur:
„Við vorum samkennarar í Gagnfræðaskólanum við Laugalæk um tíma og seinna eða 1979-1980 sáum við svo um þáttinn Í vikulokum í útvarpinu ásamt þeim Eddu Andrésdóttur og Ólafi Haukssyni eins og myndin sýnir. Þátturinn var jafnan á laugardagseftirmiðdögum og hlustaði nánast öll þjóðin enda engin önnur útvarpsstöð. Útvarpsrekstur hafði þá ekki verið gefinn frjáls og Rás 2 ekki komin til sögu. Diddi var afskaplega þægilegur samstarfsmaður og við urðum góðir vinir, ekki síst eftir að við urðum nágrannar, hann og Magga á Óðinsgötu, við Hildur á Spítalastíg. Blessuð sé minning hans.“