„Ég hef unnið um árabil í fjölmiðlum á Íslandi og byrjaði árið 2006,“ segir Lára Björg Björnsdóttir rithöfundur með meiru og lítur um öxl að gefnu tilefni:
–
„Ég man vel eftir þeirri súrrandi karlrembu sem einkenndi marga vinnustaði sem ég vann á. Við konurnar vorum í miklum minnihluta, oft örfáar á móti stórum hópi karla. Ég man eftir að hafa verið aðallega beðin um að skrifa fréttir um leikskólamál og líka ef fínt skemmtiferðaskip var kannski á leið í höfn.
–
Ég man eftir að hafa setið ritstjórnarfundi þar sem gert var lítið úr konum í íslenskum stjórnmálum og þá aðallega hæðst að útliti þeirra eins og klæðaburði og þyngd. Ég man eftir hvernig strákarnir héldu alltaf hópinn, stóðu saman og hrósuðu hver öðrum. Ég man eftir þeirri tilfinningu að það að vera kona á vinnustaðnum hafi verið auka álag, auka vesen og auka byrði. Það að vera kona var erfitt, drullu erfitt.
–
Ég velti þessum tíma reglulega fyrir mér þegar rætt er um bakslagið sem við höfum séð í jafnréttismálum víða um heim síðustu árin. En jú jú, þetta var nú allt annar tími þarna í den og mikið var þetta nú steikt og glatað en já já, þetta var bara svona. En málið fokking er að þetta þurfti ekkert endilega að vera svona. Og það að einhver og einhverjir hafi hellt olíu á þetta karlrembubál með rætnum skrifum árum saman vil ég meina sé ákveðið áfall fyrir konur eins og mig. Þetta tímabil hafði afleiðingar og hefur enn afleiðingar fyrir kvenréttindi, fyrir öryggi kvenna almennt. Þetta tímabil var nefnilega ekki bara það og svo er það liðið. Þetta smitaði yfir í næstu kynslóðir stráka og hefur áhrif.“