Skólahljómsveit Austurbæjar hélt upp á 70 ára afmæli með afmælistónleikum í Norðurljósasal Hörpu um helgina. Tónleikarnir slógu í gegn hjá viðstöddum en húsfyllir var á tónleikana.
Á tónleikunum komu 140 börn fram á aldrinum 9 – 18 ára en sérstakur gestur á tónleikunum var Vigdís Hafliðadóttir söngkona og skemmtikraftur sem tók það fram að það væri mikil gjöf að fá að læra á hljóðfæri. Saman fluttu hljómsveitin og Vigdís tvö af lögum hljómsveitarinnar Flott.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, afhenti hljómsveitinni blóm í tilefni dagsins og hvatti börnin til að halda áfram að læra á hljóðfæri og æfa sig heima, því þau væru ekki aðeins að æfa sig fyrir sig sjálf heldu alla í sveitinni. „Þátttaka í skólahljómsveit er eins og þátttaka í samfélaginu. Það þarf að kunna taktinn, finna eigin rödd og hlusta á aðra. Þannig verður til samhljómur,“ sagði Helgi.
Skólahljómsveit Austurbæjar er ein fjögurra skólahljómsveita Reykjavíkurborgar. Hún var stofnuð árið 1954 og hefur starfað óslitið síðan. Hljómsveitin þjónustar grunnskóla í Laugardal, Háaleiti og Bústaðarhverfi. Heimastöð hljómsveitarinnar er í Laugalækjarskóla. Í henni eru ríflega 140 nemendur í þremur sveitum, A, B og C og er skipað í þær eftir aldri og getu.
Stjórnandi hljómsveitarinnar er Snorri Heimisson.