Kuldahrollur er í Íslendingum sem búsettir eru í Bretlandi vegna laga sem taka gildi um áramót og svipta þá íslenskum persónuafslætti. Lögin áttu að taka gildi í fyrra en var þá frestað um ár og nú er sá tími brátt útrunninn.
650 Íslendingar í Bretlandi hafa skrifað undir mótmælaskjal vegna þessa enda telja þeir sig missa verulegan spón úr aski sínu við þetta. Annað lagafrumvarp sem slær þetta út af borðinu er klárt á Alþingi en fær tæpast afgreiðslu fyrir áramót og þá um seinan.
Einn þessara Íslendinga er Vilhjálmur Ragnarsson sem búsettur hefur verið á Norður Írlandi í 20 ár og starfað þar við kvikmyndagerð og aðrar skapandi greinar:
„Ef þetta frumvarp verður ekki samþykkt munu lífeyrisþegar búsettir erlendis missa persónuafsláttinn og lækka í útborgunum um allt að 30% á milli mánaða. Fyrir er þessi hópur skertur töluvert með búsetuskerðingum og fær engar félagslegar bætur sem eru stór partur af lífeyrisbótum,“ segir Vilhjálmur sem unir hag sínum vel á Norður Írlandi, hættur að vinna en væri alveg til í aða flytja heim ef hann hefi efni á því eins og hann orðar það sjálfur:
„Það er ágætt hérna, ódýrt að lifa og góður vinahópur. Hitti börn og barnabörn reglulega í sameiginlegum fríum á heitari stöðum og í stuttum skreppum til Íslands. Held mér andlega í þokkalegu jafnvægi með að skrifa eitthvað sem finnst í dánarbúinu og verður heimsfrægt. Ég ferðast mikið um Evrópu í 15 ára gömlum SAAB blæjubíl með sambýliskonu minni og tíkinni Þóru.“