Verðlaunaafhending í keppninni Framúrskarandi ungur íslendingur 2024 er ráðgerð 4. desember. Halla Tómasdóttir forseti mun afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn.
Það er JCI Ísland sem með þessu vill heiðra ungt fólk á aldrinum 18-40 ára sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni: „Þetta er unga fólkið okkar sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni,“ segja þeir hjá JC og hvetja landsmenn til að benda á einhverja í nærumhverfi sínu sem risið gætu undir titlinum. Tilnefningarnar hrannast inn og fer hver að verða síðastur að taka þátt.
Sérstök dómnefnd mun fara yfir tilnefningar og velja 10 framúrskarandi einstaklinga sem hljóta viðurkenningu. Einn þessara einstaklinga hlýtur svo verðlaunin Framúrskarandi ungur Íslendingur 2024 – úr hendi Höllu forseta.