Öðruvísi fór en til stóð í helgarbíltúr fjölskyldu sem ætlaði til Þingvalla Nesjavallaleið frá Vesturlandsvegi við Geitháls. Risastór skilti hefti leið þar sem varað var við háum sektum og tilheyrandi ef ekki væri hlýtt.
Reyndar var hægt að keyra framhjá skiltinu á vinstri vegarhelmingi og hann opinn fyrir umferð frá Þingvöllum þó engin væri trafíkin. Bílstjórinn skaust því framhjá og ók sem leið lá til Þingvalla eins og til stóð án nokkurs trafala eða ummerkja um framkvæmdir.
Á vef Vegagerðinnar var engar upplýsingar að fá um lokunina og mögulegar fjársektir nema hvað að vegurinn væri lokaður og með fylgdi kort þar sem vegurinn var merktur rauður, þ.e. lokaður.
„Þetta var dulrfullt,“ sagði fjölskyldan einum rómi þegar rennt var í hlað á Þingvöllum án þess að nokkuð hefði í skorist.