Jónatan Hermannsson jarðræktarfræðingur er einn snjallasti hugsuðurinn á samfélagsmiðlum. Nú haustar og Jónatan rifjar upp haustið 1970 – fyrir 54 árum:
–
haustið 1970
var annað haustið mitt á Hvanneyri
þá var myrkur og rigning
við Friðrik
plægðum á Hesti á opnum vélum
og ljóslausum
í myrkri og rigningu
einn
tók ég grafir í Hvanneyrargarði
í myrkri og rigningu
við Haukur
grófum upp lekar og ónýtar frárennslislagnir
á síðkvöldum
í svartamyrkri og slagviðri
svartast áttum við myrkrið
undir prestssetrinu
og vestur af því
hvar við grófum upp rotþró
og ónýta leiðslu
og skiptum um þá síðarnefndu
seðla fáeina
fengum við að verkalokum
og ákváðum að verja þeim
í eitthvert fagurt og gott málefni
buðum félögum okkar tólf
að koma með okkur í sjöunda himin
einn okkar
fann þar förunaut lífsins
gladdi okkur
þótt við hinir
værum enn jafnörvæntingarfullir
og pipraðir
og áður