Ártúnshöfði-Elliðaárvogur er stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur og mun margt gerast þar á næstu árum. Áætlað er að í þessum nýja borgarhluta rísi allt að 7-8000 íbúðir og að þar geti búið allt að 20.000 borgarbúar.
Skipulagsvinnan er í gangi um þessar mundir en hún byggir á rammaskipulagi frá 2016 sem unnið var í kjölfar hugmyndasamkeppni. Hér er verið að umbreyta athafna- og iðnaðarsvæði í íbúabyggð og þarf því meðal annars að skipta um jarðveg. Búast má við að flutningur á fyrirtækjum hefjist á næstu 2-3 árum. Fyrstu íbúðirnar gætu verðið tilbúnar jafnvel árin 2025 eða 2026.