„Skrifaði að þessu sinni í Bokmagasinet / Klassekampen um einn af vinsælustu og mest þýddu höfundum Noregs á millistríðsárunum, sem nú er þeim með öllu gleymdur: Kristmann Guðmundsson,“ segir Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur og fær heldur betur viðbrögð hjá Kristjáni B. Jónassyni fyrrum bókaútgefanda.
–
„Ég tók mig til sumarið 2022 og las allar endurminningabækur Kristmanns og held að það sé einn áhrifamesti texti sem ég hef lesið á undanförnum árum. Skrifaðar af gríðarlegum þrótti, fullar af mótsagnakenndum og jafnvel ofsafullum tilfinningum. Heimsmaður sem ferðast um Evrópu á rauðum sportbíl eitt sumar, flýgur til Parísar í skítaveðri til að fara í partí og er næstum dauður á leiðinni, siglir um Óslóarfjörð á spíttbátum og heldur við fegurðardrottningar og húsmæður á víxl. En er svo allt í einu orðinn hænsnabóndi við Elliðaár og er þá stoltastur yfir hvað hann fær mörg egg á dag til að selja setuliðinu. Giftist svo jógadísinni og píanóleikaranum Steinunni Briem sem síðar þýddi Múmínálfanna, eftir að hafa tekið við henni eftir að reynt hafði verið að byrla henni ólyfjan og ræna af indverskum bandíttum í Róm. Það á að gera sjónvarpsþáttröð byggða á ævi hans.“