Kjósandi skrifar:
–
Eitt mesta hitamál forsetakosningana eins og þegar hefur verið bent á verður hálendi Íslands, auðlindir og notkun á málskotsréttinum. Margir benda á að leynt og ljóst sé stefnt að því að selja Landsvirkjun, fjöregg þjóðarinnar, og arður af þeirri einkavæðingu hverfi þar með til erlendra og innlendra elíta.
–
Í framhaldi af því hefur verið spurt hvort framboð Katrínar Jakobsdóttur sé liður í því að tryggja það að lög varðandi ofangreint fljóti í gegn um Bessastaði án þess að vera vísað í þjóðaratkvæði. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttur segir framboð sitt tilkomið vegna slíkra áhyggja.
–
Í tilkynningunni um framboð sitt sagði Katrín forseta Íslands eiga að standa vörð um hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi. Hún minntist ekki einu orði á mikilvægi forseta í að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar og auðlindir hennar. Framtíð lands og þjóðar ræðst af því að þjóðin verði ekki svipt auðlindum sínum. Almenningur á heimtingu á skýrum svörum varðandi mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar þar sem forsetinn getur haft úrslitaáhrif með því að láta þjóðina hafa lokaorðið um sínar eigin auðlindir.
–
Sumir frambjóðendur hafa þegar lýst því yfir að þeir muni grípa til málsskotsréttarins verði sett lög sem skerða tjáningarfrelsi eða önnur grundvallarmannréttindi en á slíkum lögum eru engar líkar því þau færu í bága við stjórnarskrána. Frambjóðendur eiga ekki að komast upp með að slá ryki í augu kjósenda með því vísa í mögulega skerðingu mannréttinda sem eru þegar grundvallarlög í landinu. Lagasetning varðandi auðlindir er hins vegar í sjónmáli.
–
Frambjóðendur verða að gefa afdráttarlaus svör varðandi auðlindir Íslands. Það er skylda fjölmiðla að halda kjósendum upplýstum í aðdraganda kosninga og sú skylda hvílir ekki síst á þáttastjórnendum RÚV. Þeir verða að spyrja þessara spurninga beint.