„Stoltur er ég af því að geta kallað þennan nafna minn kæran vin,“ segir Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur og vígður maður um Guðmund Karl Brynjarsson sem vill verða biskup:
–
„Ég kynntist honum fyrst örlítið þegar ég var í 9. bekk og svo enn betur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem við lögðum sameiginlega áherslu á að falla í stærðfræði, geyma þýskuna þangað til ,,seinna“ og láta eins og fífl í raungreinatímum.
–
Þótt ekki værum við líkir í útliti þá var okkur stundum ruglað saman af skólayfirvöldum, kannski af því að námsferilar okkar voru andlega skyldir, en svo var þetta Brynjarsson og Brynjólfsson ekki ólíkt. Við stóðum í ýmsum uppátækjum saman og vorum lítið í því að hugsa um hvað öðrum fyndist (sem hefur held ég fylgt okkur áfram) – og ekki vorum við biskupsefnið alltaf með þá áru að á okkur sæist að síðar yrðum við vígðir menn. Ég held að það væri frábært fyrir Þjóðkirkjuna að fá Gumma Kalla sem biskup – versta helv…að ég má ekki kjósa! Gummi Kalli er trúr og traustur, yfirlætislaus og alþýðlegur og manna skemmtilegastur þegar þannig liggur á honum. Fyrir utan að geta gengist við sjálfum sér á öllum tímum ævinnar – það virðist hvorki mikilvægt né snúið, – en reynist nú samt sumum glettilega erfitt.
–