„Fyrir rúmlega 50 árum vildu gömlu mennirnir rífa mikið af 50-70 ára húsum hvar sem þau urðu í veginum fyrir skipulaginu eða bara til þess að útvega bifreiðastæði. Við unga fólkið mótmæltum þessu harðlega,“ segir Hilmar Þór Björnsson arkitekt og heldur áfram:
„Nú, 50 árum seinna, eru stjórnvöld enn á fullu að rífa 60-80 ára gömul hús og finnst það bara í himnalagi?
Skrítið!
Ég hef á tilfinningunni að það hafi aldrei verið rifið jafn mikið af húsum í Reykjavík og undanfarin 10 ár. Ég hef líka á tilfinningunni að stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir hvað niðurrifið er mikið eða að þau séu í e.k. afneitun og haldi að þetta sé ekki eins mikið og það er í raun. Ég tek undir með þeim sem halda því fram að mest af þessu niðurrifi er óþarft og málin megi leysa betur með öðrum hætti.
Ástæðurnar fyrir öllu þessu niðirrifi eru margar og oftast vegna þess að fjáraflamenn vilja ávaxta pund sitt og fá meiri nýtingu á lóðum sínum. Oft eru gömul hús látin grotna niður og grenjavædd og svo er heimild fengin frá borginni til niðirrifs.
Mér sýnist þarna sé um að ræða fleiri tugi húsa. Líkega 10 við Hverfisgötu og annað eins eða meira við Laugaveg, heil húsaröð við Frakkastíg, hús við Vatnsstíg, nokkur hús við Vitastíg, Baldursgötu og við Hringbraut og Sólvallagötu og Skúlagötu þurftu að víkja. Svo þurfti að rífa byggingar á Kirkjusandi og húsin á Orkureitnum við Suðurlandsbraut og Ármúla og hús Hitaveitunnar við Grensásveg og ekki má gleyma húsunum sem voru látin víkja fyrir Vogabyggð fjögur hús við Sogaveg og tvö við Njálsgötu og mörgum fleirum sem ekki verða talin hér.“