Spánskur fjölmiðill hefur sagt vikum saman að hún væri í læknisfræðilega framkölluðu svefndái. Fréttir birtast samtímis af Rose Hanbury markgreifafrú úr innsta hring aristókrasíunnar en hún ku vera viðhald Vilhjálms en þær sögusagnir hafa verið á kreiki í mörg ár. Meint framhjáhald sem hefur verið óopinbert leyndarmál í fínni kreðsum árum saman er nú rætt opinberlega eins og hver önnur staðreynd.
TORTÍMING BRESKU KONUNGSFJÖLSKYLDUNNAR
Undanfarnar vikur hefur fólk beggja megin Atlantsála fylgst í andakt með gangi mála hjá bresku konungsfjölskyldunni þar sem stöðugt sígur á ógæfuhliðina. Framtíð konungdæmisins, sem virtist einstakt á heimsvísu undir langri og farsælli forystu Elísabetar II frá 1953 til 2022, er í húfi. Lýðveldissinnar fagna því að þessi úrelta stofnun, að þeirra mati, er að kikna undan brestum sínum. Það er tæp öld síðan að það hrikti verulega í stoðum konungdæmisins þegar Játvarður VIII sagði af sér til að kvænast hinni fráskildu bandarísku Wallis Simpson, 1937.
–
Skilnaður Karls, núverandi konungs, og Díönu prinsessu af Wales 1996 vegna framhjáhalds skók konungdæmið. Harry og Meghan fluttu til Bandaríkjanna og komu sér undan öllum konunglegum skyldum 2020 og hafa með kjánalegri hegðun og tilætlunarsemi valdið miklum ímyndarskaða. Bræðurnir Vilhjálmur krúnuarfi og Harry talast ekki við. Sá yngri hefur þegar glatað virðingu sinni og nú er persónuleiki hins verðandi konungs einnig undir smásjánni.
–
Fjölmiðlar telja konungsfjölskylduna, sem áður naut virðingar, vera við það að tortíma tilverurétti sínum sem virðulegt sameignartákn hins fyrrum heimsveldis. Þau eru nú höfð að háði og spotti. Stærstu fjölmiðlar heims velta upp spurningum varðandi trúðverðugleika þeirra. Rifjuð er upp mantra Elísabetar II um að fólk yrði að sjást til þess að því væri trúað. Nú trúir fólk ekki því sem það sér.
–
Fjarlægðin sem áður gerði fjöllin blá og mennina mikla er horfin og þau hafa átt sinn þátt í því að svipta tjöldunum til hliðar og sýna alla þá miklu breyskleika sem einkennir þetta einstaka forréttindalið. Þúfan sem velti hlassinu nýlega var fótosjoppaða myndin af Katrínu prinsessu af Wales og þremur börnum hennar sem kom frá skrifstofu prinsins og prinsessunnar af Wales á mæðradaginn. Þegar stórar fjölmiðlaveitur bönnuðu birtingu myndarinnar þar sem hún væri fölsuð var sem sprengju hefði verið varpað. Þetta var fyrsta opinbera myndin af Katrínu sem ekki hefur sést opinberlega síðan á jóladag 2023. Hún var lögð inn á spítala um miðjan janúar til að gangast undir skurðaðgerð á kviðarholi og þá tilkynnt að hún myndi ekki sinna opinberum skyldum fyrr en eftir páska. Grunsemdir um að ekki væri allt með felldu blossuðu upp þegar Vilhjálmur afboðaði nýlega komu sína á minningarathöfn um Konstantín fyrrum Grikkjakonung, guðföður sinn, með klukkutíma fyrirvara en hann átti flytja ræðu þar. Engar skýringar voru gefnar á þessari skyndilegu ákvörðun um að mæta ekki til kirkjunnar sem var í fimm mínútna fjarlægð frá heimili hans. Í kjölfarið var fótósjoppaða myndin birt eins og til að lægja öldurnar. Þegar allt varð vitlaust var birt athugasemd í nafni Katrínar um að hún hefði slysast til að fótósjoppa myndina enda áhugaljósmyndari. Stanslaus olía á eldinn.
–
Ofangreind atburðarás hefur dregið allan trúverðugleika þessar öldnu stofnunar í efa. Talað er um hrun í þessu samhengi. Upprunalega, ófótósjoppaða myndin fékkst ekki birt, engar frekari skýringar komu fram nema klaufaleg ljósmynd tveimur dögum síðar af Vilhjálmi á leið í opinbera athöfn og vangasvip konu við hlið hans í bíl, sem gæti hafa verið Katrín og sögð vera að nota bílferðina í einkaerindagjörðum. Allt er þetta dularfullt og ótrúverðugt. Katrín sést ekki og netið logar af sögusögnum um afdrif hennar.
–
–
Krísur konungdæmisins eru ekki lengur undantekning heldur reglan. Fjölmiðlar vissu ekki hvert þeir áttu að snúa sér nýlega þegar Andrés prins leiddi konungsfjölskylduna í minningarathöfnina um Konstantín eftir að William afboðaði sig skyndlega. Þarna gekk Andrés fremstur í flokki ásamt Fergie sinni, glaðbeittur eins og sjónvarpsþáttastjórnandi, með öll sín kynlífshneyksli undir frakkanum. Camilla drottning og langtímaviðhald var aftar í röðinni sem og hin tvígifta Anna prinsessa. Þar á eftir komu meðlimir annarra evrópskra konungsfjölskyldna.
–
Núverandi höfuð fjölskyldunnar Karl konungur er í krabbameinsmeðferð en hefur þrátt fyrir það verið sýnilegur og fréttir af honum birst reglulega. Karl hefur þótt standa sig vel frá því að hann tók við af móður sinn en nú í veikindum hans og fjarveru Katrínar virðist skipið stjórnlaust. Það voru aldrei bundnar miklar vonir við Karl sem prins af Wales. Framhjáhald hans með Camillu og framkoma við Díönu sýndu mikla karakterbresti. Frá því hann tók við af móður sinni hefur hann hins vegar þótt sýna færni í að meðhöndla ýmis vandamál.
–
Eftir að Katrín bókstaflega hvarf af sjónarsviðinu eftir jól hefur komið betur í ljós að hún hefur verið einn virðulegasti og færasti útvörður hins gamla konungdæmis. Óaðfinnanleg, brosmild í sinni skyldurækni og fagmannleg í allri framgöngu. Engar upplýsingar liggja fyrir um veikindi hennar en það var strax tilkynnt að hún myndi vera fjarverandi fram yfir páska, sem nú eru á næsta leiti. Nú þegar Vilhjálmur stendur einn opinberlega er eins og hann valdi ekki hlutverkinu. Fyrir nokkrum árum sagðist hann gefa lítið fyrir þá reglu sem einkennt hefur kongungsfjölskylduna ,,að útskýra ekki og afsaka ekki“. Hann hefur gengið lengst allra í þeim efnum að útskýra hvorki né afsaka. Dómgreind hans er nú ítrekað dregin í efa. Hann þótt sýna undanlátssemi við pólitískan rétttrúnað þegar hann fordæmdi konu á níræðisaldri sem vann við hirðina og lét víkja henni til hliðar fyrir að hafa spurt unga svarta konu um uppruna hennar. Hann þykir þrjóskur og frekar síngjarn, vill helst takmarka opinbert framlag sitt við tímann frá kl. 10 til 4. Frá því að hann varð prins af Wales hefur hann óhemju miklar tekjur af hertogadæminu í Cornwall eða um 24 milljónir punda á síðasta ári. Hann hefur aðeins notað hluta af þeim tekjum og þá í eigin þágu en enginn veit hvernig.
–
Framkoma Vilhjálms í ýmsum efnum hefur valdið vonbrigðum. Þrátt fyrir myndarlegt og festulegt yfirbragð þykir hann ekki sýna dómgreind, færni eða fagmennsku. Klaufaskapurinn í kringum Katrínarmálið allt hefur vakið upp umræðu um erfiðleika í hjónabandi þeirra og að hann sé í örvæntingu að hylma yfir eitthvað alvarlegt. Á fótósjoppuðu myndinni var Katrín ekki lengur með giftingarhringinn sinn og trúlofunarhring Díönu sem hún hefur ætíð borið. Í kjölfar fótósjoppuðu myndarinnar og í fjarveru Katrínar hefði Vilhjálmur þurft að koma með opinbera útskýringu. Sem verðandi konungur býr hann í heimi samfélagsmiðla þar sem upplýsingar og sögusagnir fara um á hraða ljóssins. Hann þumbast við eins og dráttarklár sem er að draga konungdæmið á haugana. Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að kongundæmið breska er að hrynja og að Katrín hafi líklega verið síðasti stólpinn undir því.