Ástandið í heiminum hefur áhrif á tískuna, segir áhrifafólk í tískuheiminum. Ógeðfelldur ójöfnuður og andúð á lífstíl þeirra ofurríku, sem kunna ekkert annað en að berast á smitast yfir á tískuhönnuði eins og aðra sem eru með fingurinn á púlsinum.
Ofurhannaðir skrautkjólar eins og sjást á rauðu dreglunum þykja orðið hallærislegir. Allt er nú á lágstemmdari og sígildari nótum. Svart og hvítt stendur enn fyrir sínu. Naumhyggja er aftur að ryðja sér til rúms. Ráðin frá tískuritstjórum (fremur en tískuhúsum) eru að koma sér upp góðum grunni af nothæfum fatnaði eins og rykfrakka, þröngu pilsi, buxnadragt og góðum gallabuxum.
Tískufyrirmyndirnar núna eru því þær sem berast ekki á og eru glæsilegar á lágstemmdum nótum. Tekið er dæmi af konu eins og Carolyn Bessette eiginkonu John Kennedy yngri en bæði fórust í flugslysi í lok síðustu aldar. Hún vann hjá Calvin Klein og myndir af henni sýna hvernig þessi lágstemmdi elegansi stenst tímans tönn. Lauren Sanchez fylgdarkona eins auðugasta manns heims fellur á hinn bóginn ekki í þennan flokk lágstemmds glæsileika þar sem hún skartar 105 þúsund dollara eða rúmlega 14 milljón króna bleikri Birkin tösku þegar hún fer á kaffihús. Ekki smart!