Það ku reimt á Bessastöðum. Fyrrum forsetar hafa orðið varir við vofu Apollóníu Schwarzkopf sem dó þar fyrir réttum þremur öldum eða um Jónsmessu 1725.
Appólónía og amtmaðurinn á Bessastöðum, Níels Furhman, höfðu verið trúlofuð um árabil í Kaupmannahöfn. Þegar hann sleit trúlofuninni stefndi Appollónía honum fyrir heitrof og var hann dæmdur til að kvænast henni. Það vildi hann ekki og fór til Íslands 1718, þar sem hann hafði verið skipaður amtmaður. Hæstiréttur í Danmörku staðfesti síðan dóm undirréttar þar sem Níels amtmanni var gert að kvænast henni ellegar borga henni árlega tvo þriðju af launum sínum yrði ekkert af brúðkaupi.
Appolónía sigldi til Íslands með Hólmskipi í sumarbyrjun 1722 til að reyna að fá Níels til að efna heit sitt. Í þrjú ár dvaldi Apollónía á Bessastöðum við erfitt hlutskipti og engar efndir á hjúskparheiti amtmanns. Níels Furhman var kominn með aðra ástkonu, Karen Holm, en móðir hennar Katrín var ráðskona á Bessastöðum. Þessar dönsku konur eru grunaðar um að hafa eitrað fyrir Appolóníu.
Áður en Níels kynntist Appolóníu hafði hann svikið aðra stúlku í tryggðum. Sú veslaðist upp af þunglyndi en áður en hún dó óskaði hún Furhman alls ills og að hann yrði ógæfumaður. Það virðist hafa ræst. Hann dó bitur maður 1733 og er grafinn undir gólfinu í Bessastaðakirkju við hlið Appolóníu. Þar hafa þau legið með sín óuppgerðu mál í þrjár aldir. Appolína reikar því eirðarlaus um nætur á Bessastöðum. Kannski bíður hún nú á þessum tímamótum eftir skilningsríkri og lífsreyndri manneskju í embætti forseta. Sjálf var hún sögð góð og velviljuð kona.