Læt ég fyrir ljósan dag
ljós um húsið skína
ekki til að yrkja brag
eða koma neinu í lag
heldur til að horfa á konu mína.
–
Páll Ólafsson var fæddur á Dvergasteini í Seyðisfirði og alinn upp á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði en þar var faðir hans, Ólafur Indriðason, prestur. Páll var bóndi á nokkrum bæjum á Austurlandi en lengst bjó hann á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Hann var tvígiftur, átti fyrst Þórunni Pálsdóttur, en eftir að hún dó átti hann Ragnhildi Björnsdóttur. Hann unni Ragnhildi afar heitt og orti til hennar margar fallegar ástavísur. Páll var einstaklega vel hagmæltur og urðu margar lausavísna hans landfleygar. Þá orti hann og talsvert af lengri ljóðum. Skáldskapur hans er yfirleitt í rómantískum anda, léttur og lipur.