Með opin augu heitir heimildarmynd um tvær blindar konur á 20 ára tímabili. Aðstandendur myndarinnar eru þau Ásta Sól Kristjánsdóttir, Elin Lilja Jónasdóttir og Ísak Jónsson. Safna þau nú fé á Karolina Fund upp í framleiðlukostnað – sjá hér.
Skyggnst er inn í hugarheim tveggja blindra kvenna, Ásrúnar Hauksdóttur og Brynju Arthúrsdóttur. Þeim er fylgt eftir við leik og störf, í gegnum sorg og sigra, en báðar eru þær mjög sjálfstæðar, yfirvegaðar, bjartsýnar og hafa húmor fyrir lífinu.
Í byrjun myndarinnar verður ekkert sem bendir sérstaklega til þess að konurnar tvær séu blindar, en áhorfendur uppgötva það smátt og smátt. Ýmis hljóð eru mögnuð upp og áhersla er á skynfæri.
Á meðan Ásrún nuddar á nuddstofu sinni og Brynja undirbýr matarboð, kynnast áhorfendur þeirra innri persónum, viðhorfum til lífsins, heyra sögur úr fortíðinni og vangaveltur um framtíðina. Ekki er um uppstillt viðtöl að ræða heldur er frekar hugsað um að mynda konurnar í eins náttúrulegum og óþvinguðum aðstæðum og mögulegt er, með léttu spjalli inn á milli.