Alda, brú yfir Fossvog, var til kynningar hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun. Undirbúningur fyrir útboð er langt á veg kominn en tvö útboð eru í undirbúningi, annars vegar fyrir fyllingar og hins vegar fyrir smíði brúarinnar. Alda er ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum, ásamt því að vera lykillinn að leið Borgarlínunnar yfir Fossvog.
Áætlað er að fyrsta útboð af tveimur fari fram með vorinu en þá verða fyllingar boðnar út. Fyllingar í Skerjafirði verða hluti af því útboði.
Útboð á smíði brúarinnar og landmótun er síðan fyrirhugað um mitt sumar. Í síðari útboðinu er meðal annars gert ráð fyrir 900 tonnum af stáli í yfirbyggingu brúarinnar, sem verður í fimm höfum með steyptu brúargólfi. Gert er ráð fyrir að stórar forsmíðaðar einingar verði notaðar í stöpla og yfirbyggingu. Brúin verður 270 m að lengd.
Taka þarf sérstakt tillit til starfsemi Reykjavíkurflugvallar í báðum útboðum og þau áhrif sem flugumferð hefur á framkvæmdir við fyllingar og byggingu brúarinnar.
Áætlað er að vinna við landfyllingar hefjist í sumar og að byrjað verði á Kársnesi. Í byrjun næsta árs er svo áætlað að hefja vinnu við brúargerð og landfyllingar Reykjavíkurmegin. Fyrirhugað er að hefja vinnu við landfyllingar í Skerjafirði árið 2026 og samhliða verður unnið við brúargerð. Verklok eru áætluð á árinu 2027.
Áætlaður kostnaður við brúna eru 6,7 milljarðar króna. Áætlaður kostnaður við landmótun og yfirborðsfrágang er 2,1 milljarður króna.