Kristrún Frostadóttir hefur skipt út málverki í skrifstofu forsætisráðherra eins og venja er með nýjum herrum. Kristrún hefur valið mynd eftir Guðmundu Andrésdóttur, geómetríska fegurð sem sést ekki oft.
Ríkið á mikið magn í geymslum af frábærri myndlist sem Listasafn Íslands hefur í umsjá. Verk Guðmundu er eitt þeirra og verður val forsætisráðherra að teljast nýstárlegt og gott.

Guðmunda Andrésdóttir (1922-2002) hóf myndlistarnám árið 1945 er hún hélt til náms í Svíþjóð. Hún lauk kennaraprófi frá Konstfackskolan í Stokkhólmi árið 1946 og stundaði nám við málaraskóla Otte Skjöld í Stokkhólmi 1945-1946 og Listaháskólann í Stokkhólmi 1946-1948. Hún hélt síðar til Parísar og nam við L’Académie de la Grande Chaumière árið 1951 og við L’Académie Ranson frá 1951-1953. Árið 1953 flutti hún aftur til Íslands. Hún var um árabil einn félaga í Septem-hópnum sem var vettvangur íslenskra abstraktmálara um árabil.