„Í gær nýttum við gömlu hjónin loksins gjafabréf sem við fengum í jólagjöf í Hvammsvík í Hvalfirði,“ segir Guðmundur Andri rithöfundur sem varð ekki fyrir vonbrigðum heldur þvert á móti – alsæll:
„Þetta var nú meiri sælan! Vatnið einkennilega hárrétt blanda sem manni fannst að mynda græða sérhvert mein. Allt bar vitni um alúð og virðingu fyrir umhverfi og gestum og engu líkt að liggja þarna í vatninu og sjá stjörnurnar smám saman birtast á himinhvolfinu: „Er þetta Karlsvagninn þarna? Sjáðu – Fjósakonurnar!“ Allt í kringum okkur vakandi fjöllin sem þögðu og fólk skvaldrandi á öllum tungumálum, þó að maður heyrði náttúrlega mest í Ameríkönunum sem tala þjóða hæst, ásamt Íslendingum. Við höfum það hins vegar fram yfir þá að vera ekki að farast úr blygðun. Ég held að ég hafi verið eini allsberi maðurinn í sturtunni – næstum eins og dóninn á svæðinu – tautandi eitthvað með sjálfum mér eum „túristann“ sem ekkert kunni og ekkert viti. Svo borðuðum við afar ljúffengan mat á jólaplatta. Starfsfólkið var alúðlegt, ræðið og hresst sem gerði upplifunina enn ánægjulegri. Og í dag finnst mér eins og ég hafi náð af mér hrúðri margra ára í þessu undravatni, og svei mér ef stór hluti af mér er ekki aftur sextán ára.“