Reykjavíkurborg tilkynnir:
–
Framkvæmdir við endurbætur á Friðarsúlunni í Viðey eru hafnar. Þær ganga samkvæmt áætlun og á þeim að ljúka áður en súlan verður tendruð, þann 9. október næstkomandi.
Alllengi hefur legið fyrir að ráðast þurfi í endurbætur á Friðarsúlu Yoko Ono í Viðey. Verkefnið er í meginatriðum tvíþætt, annars vegar endurbætur og uppfærslur á tæknibúnaði og hins vegar lagfæringar á „óskabrunni“ sem ljóssúlan rís upp úr og palli umhverfis brunninn sem þakinn er þrenns konar íslensku grjóti.
Í kjölfar verð- og hæfnikönnunar var samið um smíði og uppsetningu tæknibúnaðar við ítalska framleiðendur sem komu að smíði og uppsetningu tæknibúnaðarins í upphafi. Búnaður var fluttur til landsins í sumar og út í Viðey 23. júlí, þar sem tæknimenn frá fyrirtækinu unnu að uppsetningu fram í ágúst. Vinnan gekk samkvæmt áætlun og hefur búnaður verið prófaður og virkar vel. Fyrir liggur að fínstilla geislann í lok september og verður sú vinna unnin af tæknimönnum safnsins. Viðgerð á steinlögn hefst á næstu dögum og á henni að ljúka fyrir tendrun þann 9. október.