„Var að spjalla við vin minn nýverið um veðurfarið á Tenerife sem við báðir höfum heimsótt en þessi vinur minn er seglbrettagaur og elskar öldurnar og vindinn við suðurenda eyjunar.“ segir Tolli Morthens myndlistarmaður:
–
„Við vorum auðvitað bísna ánægðir með veruna þarna suður frá ég með hvíldina á laugarbakkanum og hann með átökin á brotöldum undir Afríkusól.
Ég var að segja honum hvað ég hefði gott af því að gera ekkert en hve líkaminn hefði fljótt fundið fyrir því þegar skammdegis þreytan tók að síga upp frá skrokknum í hita og aðgerðarleysi svo stundum var ég alveg búinn um kvöldið eftir langa legu og bókalestur en samt sæll og sáttur.
–
Vinur minn hafði orð á því hve það hefði verið meira næs ef Ingólfur og aðrir landnámsmenn hefðu siglt sunnar og fundið Tenerife og það hefði síðan orðið heimkynni okkar.
–
Eftir smá þögn kváðum við upp í einu hljóði „nei við elskum íslenska veðuráttu“ allir þessir vindar og ferskleiki, stormar og él, veðurgluggar sem opnast og lokast í sífellu, miðnætursól og vetramyrkur og þessi einstaka orka sem er hér allt um liggjandi, nei það er eitthvað við samspil lands og veðurs sem gerir það einstakt að búa hér.
–
Eða hvað sagði ekki skáldið „Ég elska þig stormur“.
–
Semsagt gott að hverfa suður í sólina og lofa þreytunni að gufa upp og hverfa svo síðan heim í þetta karnival sem veðrið er hérna.“