Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður og foringi Miðfokksins er í Færeyjum og á vart orð til að lýsa ánægju sinni með samfélagið sem þar blasir við honum:
„Í fríhöfninni spurði ég hvort ég mætti kaupa poka. Afgreiðslumaðurinn benti mér á að pokarnir væru aftast og vildi ekki greiðslu, „taktu eins marga og þú vilt”.
Aftast beið haugur af alvöru plastpokum.
Þar voru líka netin sem fólk setur utan um flöskur svo þær brotni ekki.
Ég var ekki með flösku en sé eftir að hafa ekki tekið eitt stk. sem minjagrip um þessa upplifun.
Fyrir utan flugstöðina biðu leigubílar. Allir skipaðir heimamönnum sem virtust hafa verið í bransanum í 25 ár. Á leiðinni til Þórshafnar var hægt að ræða við bílstjórann á íslensku og hann var með allt á hreinu. Þegar komið var á áfangastað buðumst við til að greiða meira en uppsett verð. Hann vildi ekki heyra á það minnst.
Hér í Færeyjum eru þeir m.a.s. með sérstök salerni bara fyrir konur. Í þessum rækilega merktu salernum geta konur verið í friði fyrir körlum í hreinu og fínu umhverfi.
Vonandi verður Ísland svona nútímalegt og framfarasinnað einn daginn.“